Inter staðfestir tilboð í Mascherano

Javier Mascherano gæti farið til Inter eftir allt saman.
Javier Mascherano gæti farið til Inter eftir allt saman. Reuters

Framkvæmdastjóri Inter Mílanó, Evrópumeistaranna í knattspyrnu, hefur staðfest að Liverpool hafi verið gert tilboð í landsliðsfyrirliða Argentínu, Javier Mascherano, á þriðjudaginn.

Götublaðið The Sun hefur eftir framkvæmdastjóranum, Marco Branca, að tilboðið hafi verið send með faxi á þriðjudag og hann bíði svars frá forráðamönnum Liverpool.

„Við höfum ekki rætt við leikmanninn þar sem við viljum að þetta fari í réttan farveg og Liverpoolmenn séu sáttir við gang mála. Það vita allir að Mascherano langar að fara í annað lið í öðru landi og hann hefur átt gott samband við stjórann okkar, Rafael Benítez. Við gerðum Liverpool mjög gott tilboð, í námunda við það sem félagið hefur viljað fá fyrir hann. Við erum með sterkt lið, besta lið Evrópu, en viljum bæta við einum til tveimur leikmönnum til að styrkja það enn frekar," sagði Branca.

Mascherano var ítrekað orðaður við Inter í sumar og hann sagði m.a. sjálfur að hann notaði frístundirnar á HM í Suður-Afríku til að læra ítölsku. Barcelona hefur síðan gengið hart eftir því að fá hann að undanförnu. Mascherano fór ekki með Liverpool til Tyrklands þar sem liðið mætir Trabzonspor í umspili Evrópudeildar UEFA í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert