Sir Alex Ferguson hrósaði liðsheild sinni eftir sigurinn á West Ham á Old Trafford í dag en Manchester-liðið vann öruggan 3:0 sigur og er jafnt Arsenal í 2.-3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Wayne Rooney batt enda á markaþurrð sína og skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu en hann hafði ekki skorað með United eða enska landsliðinu síðan í mark. Nani og Berbatov skoruðu hin tvö mörkin og voru þau bæði af glæsilegri gerðinni.
,,Þetta var virkilega góð frammistaða hjá öllu liðinu. Við vorum með boltann í okkar liði meirihlutann af leiknum og við hefðum kannski átt að skora fleiri mörk. Við þurfum að bíða svolítið eftir fyrsta markinu en um leið og það kom þá var þetta aldrei spurning.
Markið hjá Nani var frábært og það var gott að sjá Rooney skora. Hann hafði virkilega gaman af því sem hann var að gera inni á vellinum. Hann var fullur af orku og frammistaða hans var til fyrirmyndar,“ sagði Ferguson.