Argentínski knattspyrnumaðurinn Javier Mascherano skýtur föstum skotum að Liverpool eftir að hafa innsiglað samning við spænska stórliðið Barcelona. Mascherano yfirgaf Liverpool í hálfgerðu fússi og samdi við Katalóníuiðið til fjögurra en kaupverð Börsunga á miðjumanninum er um 17 milljónir punda.
Mascherano segir í viðtali við breska blaðið Guardian að hann hafi ákveðið að fara frá Liverpool vegna svikinna loforða félagsins í sinn garð en ekki vegna þess að fjölskylda sín hafi ekki líkað lífið á Englandi.
,,Roy Hodgson veit sannleikann. Þetta er gleðistund fyrir svo þetta er ekki rétti tíminn til að segja hlutina. En það hefur verið sagt margt ósatt um mig og ég mun svara fyrir það,“ segir Mascherano við Guardian.
,,Þegar félagið byrjar að bendla fjölskylduna og segja hluti sem standast ekki þá verð ég auðvitað mjög sár. Liverpool lofaði mér hlutum í eitt ár en stóð aldrei við þau loforð. Það hefur ekkert með fjölskyldu mína að gera. Þegar þú heyrir lygar þá verðu maður vitaskuld reiður.“
Hins vegar hrósar Mascherano Spánverjanum Rafael Benítez sem yfirgaf Liverpool í sumar og tók við liði Inter.
,,Benítez er sá þjálfari sem hefur kennt mér mest á mínum ferli og ég er honum afar þakklátur. Hann veitti mér tækifæri til að ganga til liðs við Liverpool. Hann hafði trú á mér og ég verð honum þakklátur alla mína ævi,“ segir Mascherano.