Jamie Carragher, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, skoraði fyrir bæði Liverpool og Everton þegar nágrannafélögin mættust í ágóðaleik hans á Anfield í dag.
Liverpool vann þar Everton 4:1 en liðin voru skipuð ýmsum kunnum leikmönnum og í Liverpoolbúningnum voru m.a. fyrrum liðsmenn félagsins þeir Luis García, Emile Heskey og Michael Owen.
Carragher skoraði fyrir Liverpool úr vítaspyrnu í fyrri hálfleiknum og í þeim síðari bættu Luis García, Joe Cole og Nathan Eccleston við mörkum.
Skömmu fyrir leikslok var dæmt vítaspyrna á Carragher þegar hann felldi James Vaughan, sóknarmann Everton. Carragher, sem var stuðningsmaður Everton á sínum yngri árum, bauðst til að taka spyrnuna fyrir þá bláklæddu og skoraði af öryggi!
Um 35 þúsund manns mættu á leikinn sem haldinn var í tilefni af því að Carragher hefur nú leikið með Liverpool í 16 ár. Ágóðinn af leiknum nemur nálægt einni milljón punda sem Carragher ætlar að skipta á milli hinna ýmsu góðgerðarstofnana í borginni.