Forráðamenn enska 3. deildarliðsins Shrewsbury Town brostu sennilega breiðast allra þegar tilkynnt var að Joe Hart myndi verja mark Englands gegn Búlgaríu í undankeppni EM í knattspyrnu á föstudagskvöldið.
Shrewsbury seldi nefnilega Hart til Manchester City fyrir hálfa aðra milljón punda fyrir fjórum árum. Í samningi félaganna var einnig klásúla um að ef Hart myndi verja mark Englands í leik á stórmóti fengi Shrewsbury hálfa milljón punda til viðbótar.
Það ákvæði er nú komið í gildi og Graham Turner, knattspyrnustjóri Shrewsbury, vonast nú eftir því að fá einhvern hluta upphæðarinnar til að styrkja sitt lið. Shrewsbury er á toppi 3. deildar eftir fimm umferðir, með 13 stig af 15 mögulegum.
Hart er fæddur og uppalinn í Shrewsbury, skammt frá landamærum Englands og Wales. Hann var enn í grunnskóla, 16 ára gamall, þegar hann kom inní leikmannahóp aðalliðs félagsins og hóf að spila með því skömmu síðar. Shrewsbury seldi Hart síðan til City árið 2006.