Brasilíski knattspyrnumaðurinn Robinho sendi fyrrum félagi sínu Manchester City og borginni Manchester kaldar kveðjur í viðtali í dag en hann er sem kunnugt er farinn frá City til AC Milan á Ítalíu.
Robinho sagði í samtali við enska blaðið The People að hvorki Mark Hughes né Robert Mancini, knattspyrnustjórarnir sem hann lék hjá með City, hefðu skilið sig.
„Kannski höfðu þeir aðeins áhuga á íþróttalegu hliðinni en það var ekki nóg fyrir mig. Það vantaði samskipti á milli leikmanna og stjórnenda félagsins. Þetta var eins og á skrifstofu, menn mættu í vinnuna og sögðu svo bless, mættu í leik og sögðu svo bless. Ég er Brasilíumaður og nýt mín ekki til fulls ef ég er ekki ánægður með allar hliðar lífsins. Það var mitt vandamál - ég er sérstakur fótboltamaður og verð að finna fyrir ánægjunni þegar ég spila fótbolta," sagði Robinho í viðtalinu.
Hann sendi líka Manchesterborg tóninn. „Manchester er stórkostlegur staður hvað fótboltann varðar en hræðilegur staður til að búa á. Veturinn, kuldinn og dimmu kvöldin. Slíkt er erfitt fyrir ungan Brasilíumann," sagði Robinho.