Enska knattspyrnusambandið staðfesti í morgun að Wayne Rooney fari með enska landsliðinu til Sviss í dag en Englendingar mæta Svisslendingum í undankeppni EM annað kvöld. Rooney er helsta fréttaefnið enskra fjölmiðla í dag eftir að blöð á Englandi birtu fréttir þess efnis að hann hafi verið iðinn við að nýta sér þjónustu vændiskvenna undanfarin ár.
Orðrómur var í gangi í gær að Rooney yrði látinn sitja eftir heima og tæki ekki þátt í leiknum annað kvöld eftir þessar miður góðu fréttir en enska knattspyrnusambandið tjáði fjölmiðlum í dag að Rooney yrði í hópnum.
Fabio Capello landsliðsþjálfari Englendinga er sagður hafa rætt einslega við Rooney í gær en eins og fleiri er Capello áhyggjufullur yfir því hvort framherjinn snjalli sé í réttu hugarástandi til að spila en hann átti frábæran leik með Englendingum á föstudagskvöldið þegar þeir lögðu Búlgara, 4:0, á Wembley.