John Toshack sagði í dag af sér sem landsliðsþjálfari Walesbúa í knattspyrnu eftir að hafa stýrt liðinu í sex ár, síðan í nóvember 2004.
Wales tapaði fyrir Svartfjallalandi, 1:0, í fyrsta leik sínum í undankeppni EM síðasta föstudag og strax eftir leikinn sagði Toshack að hann væri að íhuga afsögn. Hann varð fyrir gífurlegum vonbrigðum með frammistöðu sinna manna í leiknum.
Hann sagði við BBC í dag að hann hefði frekar viljað stýra liðinu í tveimur leikjum í okbóber, gegn Búlgaríu og Sviss, og hætta svo en það hefði orðið að samkomulagi milli sín og velska knattspyrnusambandsins að hann hætti strax.
Toshack er 61 árs og var á sínum tíma öflugur framherji hjá Liverpool en þar lék hann frá 1970 til 1978 og skoraði 96 mörk í 246 deildaleikjum. Toshack spilaði jafnframt 40 landsleiki fyrir Wales og skoraði 12 mörk en síðan stjórnaði hann liðum Swansea, Sporting Lissabon, Real Sociedad, Real Madrid, Deportivo La coruna, Besiktas, St. Etienne, Catania og Real Murcia, áður en hann kom til starfa hjá Wales árið 2004.