Roy Hodgson, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði að sitt lið hefði sýnt framá að það hefði verið rétt hjá sér að hvíla fjölda lykilmanna í leiknum gegn Steaua í Evrópudeild UEFA í kvöld. Liverpool vann samt stórsigur, 4:1, á Anfield.
David Ngog tók stöðu Fernando Torres í framlínunni og skoraði tvö mörk, Joe Cole lék með á ný eftir að hafa verið í leikbanni í síðustu deildaleikjum, og skoraði eftir 25 sekúndur, og þá gerði Lucas Leiva glæsimark.
„Ég var ekki í vafa, vegna þess hve margir landsliðsmenn eru í okkar hópi, að þetta væri rétta tækifærið til að hvíla þá. Þar með fengu þeir færi á að hvíla sig vel fyrir leikinn gegn Manchester United á sunnudaginn," sagði Hodgson við BBC.
„Þeir sem komu inní liðið stóðu sig vel og náðu í góð úrslit, en ég tel að jafnvel þótt leikurinn hefði ekki endað eins vel, hefði verið rétt að gera þessar breytingar," sagði Hodgson.