Bebé fær tækifæri með Man.Utd í kvöld

Alex Ferguson teflir Bebé fram í kvöld.
Alex Ferguson teflir Bebé fram í kvöld. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur staðfest að portúgalski framherjinn Bebé, sem hann greiddi 7,4 milljónir punda fyrir í sumar, án þess að hafa séð piltinn, spili sinn fyrsta leik með aðalliði félagsins í kvöld.

United sækir þá 1. deildarliðið Scunthorpe heim í 32ja liða úrslitum deildabikarsins og nú fá stuðningsmenn félagsins að berja Bebé augum í fyrsta skipti. Það vakti athygli í byrjun tímabilsins að Portúgalinn komst ekki í varalið United.

„Margir af ungu strákunum mínum munu spila. Bebé hefur æft mjög vel og verður með í leiknum, eins og Federico Macheda," sagði Ferguson við MUTV, en þó er reiknað með að Portúgalinn hefji leikinn á varamannabekknum.

„Ég á eftir að verða frábær leikmaður fyrir United. Sir Alex er mjög ánægður með mig, vill að ég æfi enn meira og vinni mér sæti í aðalliðinu," sagði Bebé sem spilaði sinn fyrsta leik með varaliðinu í síðustu viku.

Koma Bebé til United var afar óvænt, eins og skjótur frami hans heima í Portúgal þar sem hann ólst upp á munaðarleysingjaheimili og vakti fyrst athygli fyrir frammistöðu sína á móti í götufótbolta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert