Southampton, sem leikur í ensku 2. deildinni í knattspyrnu, er sagt vera líklegast af þremur liðum úr þeirri deild til að fá Guðlaug Victor Pálsson lánaðan frá Liverpool.
Guðlaugur Victor, sem er 19 ára gamall, hefur verið fyrirliði varaliðs Liverpool að undanförnu en ólíklegt er talið að hann fái tækifæri með aðalliði félagsins á þessu tímabili.
Netmiðillinn Talksport sagði í dag að samkvæmt sínum heimildum væri Southampton líklegast til að fá Guðlaug Victor í sínar raðir en bæði Peterborough og Swindon hafi líka mikinn hug á að krækja í hann.
Guðlaugur Victor kom til Liverpool á síðasta ári frá AGF í Danmörku. Hann hefur spilað með yngri landsliðum Íslands, síðast með U21 árs landsliðinu en hann kom inná sem varamaður í sigrinum frækna á Þjóðverjum í ágúst, 4:1.