Blackpool vann á Anfield, Liverpool í fallsæti

Charlie Adam fyrirliði Blackpool kemur sínum mönnum yfir úr vítaspyrnu …
Charlie Adam fyrirliði Blackpool kemur sínum mönnum yfir úr vítaspyrnu á Anfield. DARREN STAPLES

Liverpool situr eftir í fallsæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir ósigur gegn nýliðum Blackpool á heimavelli sínum, Anfield, í dag, 1:2.

Liverpool er í 18. og þriðja neðsta sæti með 6 stig eftir 7 leiki. Blackpool er hinsvegar með þessum sigri komið uppí 9. sæti deildarinnar með 10 stig.

Liverpool missti Fernando Torres meiddan af velli eftir 10 mínútna leik og David Ngog kom í hans stað.

Blackpool fékk vítaspyrnu á 29. mínútu þegar Glen Johnson braut á Luke Varney og úr henni skoraði Charlie Adam, 0:1.

Staða Blackpool vænkaðist enn frekar í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Luke Varney komst einn gegn Pepe Reina og bætti við marki fyrir Blackpool, 0:2 í hálfleik.

Gríski miðvörðurinn Sotirios Kyrgiakos kom Liverpool inní leikinn á ný þegar hann skoraði með skalla á 53. mínútu eftir aukaspyrnu frá Steven Gerrard, 1:2.

Þar við sat þrátt fyrir talsverðan sóknarþunga Liverpool seinni hluta leiksins. Á lokasekúndum uppbótartíma varði Matt Gilks markvörður Blackpool á frá Kyrgiakos úr dauðafæri og þar með var sigur nýliðanna innsiglaður.

Liverpool: Reina, Johnson, Kyrgiakos, Skrtel, Carragher, Poulsen, Meireles, Kuyt, Gerrard, Cole, Torres.
Varamenn: Jones, Jovanovic, Maxi, Lucas, Ngog, Spearing, Kelly.
Blackpool: Gilks, Eardley, Evatt, Cathcart, Crainey, Vaughan, Adam, Campbell, Grandin, Varney, Taylor-Fletcher.
Varamenn: Halstead, Southern, Harewood, Ormerod, Sylvestre, Phillips, Keinan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert