Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði fyrir stórleikinn gegn Chelsea í dag að hann teldi að sitt lið væri tilbúið til að fara alla leið í baráttunni um stóru titlana í vetur eftir að hafa misst af þeim undanfarin fimm ár.
Arsenal varð enskur meistari 2004 og bikarmeistari 2005 en hefur síðan verið á hælum Chelsea og Manchester United í baráttunni. Liðið sækir Chelsea heim á Stamford Bridge í dag og fer ekki í þann leik með beint uppörvandi sögu á bakinu en Arsenal hefur aðeins lagt Chelsea að velli tvívegis í síðustu 17 viðureignum félaganna.
„Ég er ekki sáttur við að okkur hafi ekki tekist að vinna úrvalsdeildina undanfarin ár en við höfum ekki verið alveg úti á þekju. Við höfum farið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og verið nálægt því að vinna úrvalsdeildina. Það hefur ekki verið okkar hlutskipti að vera í sjöunda eða áttunda sæti, við höfum alltaf verið nálægt. Við erum þrátt fyrir allt búnir að vera á einum besta kaflanum í sögu félagsins. Okkar keppinautar eru lið sem vinna Meistaradeildina en við erum í hópi átta fremstu liðanna í Evrópu," sagði Wenger á fréttamannafundi í gær.
„Ég legg ekki á mig 24 tíma vinnu á sólarhring til að bíða eftir næsta tímabili. Að sjálfsögðu trúi ég því að við getum unnið titla í vetur, það er kominn tími á okkur, og við munum gefa allt okkar í leikinn við Chelsea. Ég er sannfærður um að við sigrum," sagði Wenger.
Leikur Chelsea og Arsenal hefst klukkan 15 og bæði lið sakna sterkra leikmanna.
Hjá Chelsea vantar Yossi Benayoun, Salomon Kalou og Frank Lampard en hjá Arsenal er meiðslalistinn lengri því Cesc Fabregas, Nicklas Bendtner, Theo Walcott, Thomas Vermaelen, Robin van Persie, Kiearn Gibbs og Manuel Almunia eru allir frá keppni, auk þess sem Abou Diaby er tæpur fyrir leikinn í dag.
Chelsea er með 15 stig á toppnum, Manchester United er með 13 stig, Arsenal 11 og Manchester City 11, en United hefur leikið einum leik meira en keppinautarnir.
Manchester City mætir Newcastle í fyrsta leik dagsins klukkan 12.30 og leikur Liverpool og Blackpool hefst klukkan 14.