Hodgson: Óásættanleg staða

Stuðningsmaður Liverpool lætur óánægju sína í ljós á leiknum á …
Stuðningsmaður Liverpool lætur óánægju sína í ljós á leiknum á Anfield í gær. Reuters

"Þetta er Liverpool. Við erum stórt félag og stórt lið, og enginn sættir sig við þá stöðu sem við erum í núna," sagði Roy Hodgson knattspyrnustjóri Liverpool eftir skellinn gegn nýliðum Blackpool, 1:2, á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í gær.

„Við breytum ekki því sem búið er en það er ljóst að við þurfum að leggja mjög hart að okkur til að komast í betri stöðu. Okkur var refsað í fyrri hálfleik fyrir slappa frammistöðu og áttum það skilið," sagði Hodgson við BBC en lið hans var 0:2 undir í hálfleik.

„Við vorum með boltann eins mikið og þeir en gerðum ekkert við hann af viti, til að standa undir væntingum mínum, félagsins eða leikmannanna. Í seinni hálfleik gerðum við allt sem við gátum til að snúa blaðinu við en náðum bara að skora eitt mark.

Þessi frábæru úrslit fyrir Blackpool eru martröð fyrir okkur. Þetta er vondur dagur og erfitt að sjá bjartar hliðar. Staðan er slæm og ég á erfitt með að sjá eitthvað jákvætt við hana. Við eigum vissulega 31 leik eftir en þegar þú ert í fallsæti, ertu í fallbaráttu. En sem stendur er fallbarátta ekki það sem ég hef mestar áhyggjur af, heldur það að lðið spilar ekki af fullri getu," sagði Hodgson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert