Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, skýrði frá því í dag að hann hefði átt gott samtal við búlgarska framherjann Dimitar Berbatov rétt áður en keppnistímabilið hófst.
Búlgarinn hefur leikið mjög vel með United það sem af er tímabilinu en hann náði sér ekki almennilega á strik með liðinu fyrstu tvö árin eftir að hann var keyptur af Tottenham fyrir stórfé.
„Ég ræddi við hann í byrjun tímabilsins og sagði honum að hann væri sá eini sem gæti komið sér útúr vandræðunum. Hann réði ferðinni. Hann væri gífurlegum hæfileikum gæddur og þyrfti að gera sér grein fyrir þeim og nýta þá sem best. Við myndum síðan styðja við bakið á honum. Og svo hefur hann byrjað tímabilið frábærlega. Dimitar er búinn að vera okkar besti sóknarmaður, það er engin spurning," sagði Ferguson við vef félagsins.
Hann sagði að það væri ekki sjálfgefið að nýir leikmenn næðu sér strax á strik með Manchester United. „Valencia gerði það reyndar en hann er nánast undantekning. Aðrir hafa þurft sinn tíma og Dimitar var þannig. Svoleiðis er þetta bara. Það hefur aldrei neinn efast um hæfileika hans, en nú sjáum við hann spila af sjálfstrausti og öryggi. Þetta eru atriði sem þurfa að vera í lagi hjá öllum framherjum og sem stendur er Berbatov einmitt þannig," sagði Ferguson.