Dómstóll heimilar sölu á Liverpool

Dómstóll í Lundúnum féllst í dag á kröfur helstu lánardrottna enska knattspyrnufélagsins Liverpool, sem fela það í sér að stjórn félagsins getur selt það.

Bandarískir eigendur félagsins, þeir George Gillett og Tom Hicks, vildu fá lengri tíma til að tryggja betra tilboð í Liverpool en liggur fyrir frá bandaríska félaginu New England Sports Ventures, eiganda hafnaboltafélagsins Boston Red Sox.

Hicks og Gillett, sem tóku Liverpool yfir árið 2007, héldu því fram að stjórn félagsins hefði ekki gætt hagsmuna félagsins með því að taka tilboði bandaríska félagsins. Hicks reyndi í síðustu viku að reka tvo menn úr stjórn Liverpool og setja í staðinn son sinn og viðskiptafélaga. Lögmenn Royal Bank of Scotland, helsta lánardrottins Liverpool, töldu hins vegar að þetta bryti gegn samkomulagi, sem gert var fyrr á þessu ári um sölu á félaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert