NESV orðið eigandi Liverpool

Stuðningsmenn Liverpool á Anfield.
Stuðningsmenn Liverpool á Anfield. Reuters

Bandaríska eignarhaldsfélagið New England Sports Ventures, NESV, er orðið eigandi enska úrvalsdeildarliðsins Liverpool. Félagið staðfesti þetta á fjórða tímanum.

Stjórn Liverpool samþykkti í síðustu viku að ganga að tilboði NESV upp á 300 milljónir punda í trássi við fyrrum eigendur, Tom Hicks og George Gillett, og það var loks nú í dag sem gengið var frá kaupunum eftir að málið hafi gengið á milli dómssala á England og í Bandaríkjunum.

Þeir Hicks og Gillett féllu í morgun  frá lögbannskröfu fyrir bandarískum dómstóli til að stöðva sölu félagsins en þeir hyggjast höfða skaðabótarmál þar sem þeir krefjast þess að fá 1,6 milljarða dollara.

Með kaupum NESV á Liverpool mun félagið gera upp 237 milljón punda skuld við Skotlandsbanka og koma þannig í veg fyrir að félagið fari í greiðslustöðvun en það hefði getað kostað Liverpool 9 stig.

,,Fyrir hönd NESV þá vil ég skýra frá því hversu ótrúlega stolt og auðmjúk við erum þegar það hefur nú verið staðfest að við erum nýir eigendur Liverpool. Við erum sigurvegarar og í dag vil ég láta stuðningsmenn Liverpool vita að hingað erum við komnir til að vinna,“ segir John Henry eigandi NESV á vef Liverpool.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert