Versta staðan í 57 ár

Roy Hodgson.
Roy Hodgson. Reuters

Varla eru margir stuðningsmenn Liverpool sammála Roy Hodgson knattspyrnustjóra sem kvaðst ánægður með frammistöðu sinna manna í grannaslagnum við Everton í gær. Þar unnu erkifjendurnir í bítlaborginni sætan sigur á mönnum Hodgsons, 2:0, frammi fyrir nýja eigandanum John W. Henry sem keypti Liverpool ásamt fyrirtæki sínu á föstudaginn.

Myndavélunum var oft beint að Bandaríkjamanninum og sessunautum hans, og honum var greinilega ekki skemmt á þessum fyrsta leik sínum með liðinu.

Sigur Everton var sanngjarn og það var ekki fyrr en staðan var orðin 2:0 í byrjun síðari hálfleiks, eftir mörk frá Tim Cahill og Mikel Arteta, að Liverpool tók eitthvað við sér.

Finnst við ekki vera í krísu

„Við vorum dálítið óheppnir að fara í leikhlé marki undir því við vorum þá komnir vel inní leikinn. Í seinni hálfleik gerðum við allt nema skora, spiluðum vel, sköpuðum okkur marktækifæri, héldum Everton í skefjum og þeir lögðust í vörn. Mér finnst við ekki vera í neinni krísu og tel að fótboltinn sem við sýndum í dag sé ekki eins og hjá botnliði. En stigin eru alltof fá og eflaust munu menn ræða um krísu þar til við förum að sigra og klífa töfluna,“ sagði Hodgson við fjölmiðla eftir leikinn.

Það þarf að fara 57 ár aftur í tímann til að finna jafn slæma byrjun hjá Liverpool, sem nú situr í 19. og næstneðsta sætinu, og er aðeins fyrir ofan botnlið West Ham á markatölu. Haustið 1953 byrjaði liðið enn verr en núna, og það leiddi af sér fall úr efstu deild.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert