Ferguson: Við Rooney höfum aldrei rifist

Alex Ferguson á fréttamannafundinum í dag.
Alex Ferguson á fréttamannafundinum í dag. Reuter

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hafnar því alfarið að hann og Wayne Rooney hafi rifist útaf stöðu mála hjá enska landsliðsframherjanum. Ferguson segir að United hafi gert allt fyrir Rooney sem mögulegt er.

„Ég hitti hann á fundi og hann tjáði mér á sinn hátt að hann  vildi fara. Ég sagði Wayne að það eina sem ég færi framá væri að hann sýndi hefðum félagsins virðingu, kæmi fram af fagmennsku, og við myndum leysa málið eins vel og hægt væri. Ég reifst aldrei við Rooney á neinum tímapunkti. Við verðum að greiða götu hans, hann er það góður leikmaður. Við höfum gert allt sem í okkar valdi hefur staðið fyrir hann frá því hann kom til félagsins. Við höfum hjálpað honum í einkalífinu - slíkt hefur alltaf verið gert í þessu félagi og það hjálpar til við að leikmennirnir verða félaginu trúir," sagði Ferguson á fréttamannafundinum í dag.

„Við erum jafn undrandi og allir aðrir á þessari stöðu því við skiljum ekki hvers vegna hann vill fara frá félagi sem óumdeilanlega er eitt það sigursælasta í breskri knattspyrnu. Við skiljum þetta ekki. Ég get ekki svarað spurningum um ástæðurnar fyrir þessari ákvörðun hans. Þið getið velt vöngum og myndað ykkur skoðanir en það skiptir ekki einu einasta máli. Leikmaðurinn er ákveðinn í að fara og við þurfum að fást við næsta kaflann í því," sagði Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert