Portsmouth á leiðinni í gjaldþrot

Hermann Hreiðarsson gæti verið orðinn atvinnulaus um helgina.
Hermann Hreiðarsson gæti verið orðinn atvinnulaus um helgina. Reuters

Mál enska knattspyrnufélagsins Portsmouth, sem Hermann Hreiðarsson leikur með, snerust heldur betur til hins verra í dag og nú bendir allt til þess að félagið verði lýst gjaldþrota og lagt niður.

Portsmouth hefur verið í greiðslustöðvun síðan snemma á þessu ári en komið var að því að aflétta henni. Það tókst hinsvegar ekki þegar fyrrum eigandi félagsins, Alexandre Gaydamak, krafðist hárrar greiðslu þegar í stað ef það ætti að gerast.

Í yfirlýsingu á vef Portsmouth segir að útilokað sé að reiða slíka upphæð af hendi og hún myndi setja úr skorðum allar áætlanir sem félagið og stjórn deildakeppninnar hefðu gert varðandi áframhaldandi starfsemi þess. Staðan sé því miður þannig að dagar Portsmouth FC gætu verið taldir áður en þessi dagur sé liðinn.

Í yfirlýsingunni segir m.a.: „Herra Gaydamak hefur staðfest nokkrum sinnum að hann hafi samþykkt alla skilmála. Samt hefur hann stöðugt skipt um skoðun og með því reynt að grafa undan jákvæðni annara hlutaðeigandi aðila. Með verkum sínum nú hefur hann sýnt stuðningsmönnum félagsins algjöra lítilsvirðingu, sem og félaginu og borginni sem gerði hann að heiðursborgara árið 2008." 

Hermann Hreiðarsson er nýbúinn að skrifa undir nýjan samning við Portsmouth en hann hefur verið í röðum félagsins frá 2007 og varð bikarmeistari með því vorið 2008.

Portsmouth féll úr úrvalsdeildinni síðasta vor en eftir slæma byrjun í haust hefur það verið á sigurbraut í síðustu leikjum og lyft sér uppí 15. sæti 1. deildar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert