Wayne Rooney hefur heldur betur skipt um skoðun því rétt í þessu var tilkynnt að hann væri búinn að samþykkja að skrifa undir nýjan samning við Manchester United til fimm ára. Hann verður því samningsbundinn félaginu til vorsins 2015.
Þetta var tilkynnt á vef Manchester United núna rétt fyrir hádegið og þar eru komin viðbrögð frá Rooney og knattspyrnustjóranum Alex Ferguson.
„Ég sagði á miðvikudaginn að stjórinn væri snillingur og trú hans á mig og stuðningur sannfærðu mig um að vera um kyrrt," sagði Rooney.
„Ég er hæstánægður með að Rooney skyldi ákveða að vera um kyrrt. Þetta er búin að vera erfið vika. Þegar menn eru í ákveðnu félagi skynja þeir ekki alltaf hversu stórt það er og það þarf eitthvað að gerast, eins og atburðir þessarar viku, til að þeir átti sig á því. Ég held að Wayne átti sig nú betur á því hversu frábært félag United er.
Ég er ánægður með að hann skuli hafa tekist á við þá áskorun að vera yngri leikmönnum innan handar og festa sig sjálfur í sessi sem einn af stóru leikmönnunum í sögu félagsins. Þetta sýnir styrk og trú á það sem við stöndum fyrir. Ég er viss um að allir sem tengjast félaginu munu nú fylkja sér á bakvið Wayne og sýna honum þann stuðning sem hann þarf til að sýna það sem við vitum að hann getur," sagði Ferguson á vef Manchester United.