John W. Henry, hinn nýi eigandi enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segir að það komi ekki til greina að selja bestu leikmenn liðsins. Vangaveltur hafa verið upp um að Fernando Torres og Pepe Reina markvörður kunni að vera á förum frá Anfield.
„Ég get fullvissað stuðningsmenn okkar um að við ætlum okkur ekki að veikja lið okkar í þeirri uppbyggingu sem framundan er. Við ætlum að byggja á styrk og grunni þess hóps sem fyrir er, ekki að draga úr því. Sögur sem eru í gangi um að okkar bestu menn séu á förum skemma fyrir og trufla, en við gerum okkur grein fyrir því að svona vangaveltur eru algengar," sagði Henry á vef Liverpool í dag.
„Við höfum lesið fréttir um það sem við ætlum að gera í komandi félagaskiptaglugga í janúar, og við höfum húmor fyrir þessum óhjákvæmilegu vangaveltum. Allir vita að við erum nýliðar í enska fótboltanum en við erum ekki nýliðar í íþróttaheiminum og erum að skoða alla möguleika. Okkar markmið frá fyrsta degi hefur verið, og verður, að bæta félagið og gera það sem þarf að gera til að Liverpool verði stöðugt í baráttu um titla. Við ætlum að byggja þetta félag upp á réttan hátt," sagði John W. Henry.