Redknapp: Markið var hreinn farsi

Harry Redknapp var furðu lostinn eins og fleiri.
Harry Redknapp var furðu lostinn eins og fleiri. Reuters

Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, segir að síðara mark Manchester United í 2:0 sigrinum í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í dag hafi verið hreinn farsi.

Heurelho Gomes markvörður Tottenham setti þá boltann niður eftir að hafa lent í árekstri við Nani, sem snerti boltann með hendi. Hann taldi að um aukaspyrnu væri að ræða og ætlaði að taka hana þegar Nani hljóp að boltanum og sendi hann í tómt markið. Mark Clattenburg benti á miðju eftir að hafa ráðfært sig við aðstoðardómarann.

„Þetta var einn stór farsi. Það var hendi á Nani sem sem lagði hönd á boltann og ýtti honum niður. Mark Clattenburg er dómari í hæsta gæðaflokki en þetta var martröð hjá honum. Clattenburg gerði þetta ekki viljandi en klúðraði hlutunum gjörsamlega. Þetta var jafn fáránlegt og þegar hann dæmdi ekki gilt markið sem Pedro Mendes skoraði fyrir nokkrum árum," sagði Redknapp við BBC og vitnaði þar til atviks í leik liðanna á Old Trafford fyrir tæpum sex árum, þegar boltinn fór langt innfyrir marklínuna áður en Roy Carroll þáverandi markvörður United skóflaði honum út.

Redknapp sagði að hann myndi ekki leggja fram formleg mótmæli. "Það er of seint. Clattenburg á eftir að koma með einhverja afsökun og skýra út hversvegna hann sá þetta ekki. Hann lét leikinn halda áfram en þá átti hann að segja Gomes frá því.

Ég hef ekki talað við dómarann, hann breytir ekki sinni ákvörðun og er hvort eð er búinn að klúðra þessu öllu saman. Nú munu þeir sjóða saman einhverja sögu sem lítur sennilega út - þannig verður þetta afgreitt," sagði Redknapp.

Gomes klúðraði þessu

Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United viðurkenndi að atvikið hefði verið ansi skrýtið. "Þetta var furðulegt og um tíma vissi enginn hvað hafði gerst. Markmaðurinn hélt á boltanum og svo lá hann alltí einu í markinu. Nani horfði á dómarann, sem sagði að leikurinn héldi áfram. Gat hann þá gert nokkuð annað en að senda boltann í metið?," sagði Ferguson.

"Það er hægt að kenna dómaranum og aðstoðardómaranum um þetta en markvörðurinn hefði átt að vita betur. Hann er reyndur markvörður og ég tel að hann hafi klúðrað þessu," sagði Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert