Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Chelsea, kveðst reikna með því að enski landsliðsmaðurinn Frank Lampard verði orðinn leikfær fyrir sunnudaginn þegar lið hans sækir Liverpool heim á Anfield í úrvalsdeildinni.
Lampard hefur verið frá keppni undanfarnar vikur vegna nárameiðsla og misst af síðustu 11 leikjum meistaranna.
„Lampard hóf æfingar með liðinu í síðustu viku. Hann verður ekki tilbúinn á miðvikudag en ætti að ná næsta úrvalsdeildarleik, gegn Liverpool. Ég vonast svo sannarlega eftir því þar sem við þurfum á slíkum leikmanni að halda, hann er stórkostlegur leikmaður. Liðið hefur spjarað sig vel án hans en ég býst við því að hann fari beint í byrjunarliðið. Það er spilað þétt, leikur á þriggja daga fresti, svo allir okkar leikmenn taka þátt," sagði Ancelotti á fréttamannafundi en lið hans mætir Spartak Moskva í Meistaradeild Evrópu annað kvöld.