Chelsea hélt sigurgöngu sinni áfram í Meistaradeildinni en Lundúnaliðið skellti Spartak Moskvu, 4:1, þar sem Branislav Ivanovic skoraði tvö marka Chelsea, sem með sigrinum tryggði sér farseðilinn í 16-liða úrslitin. Öll mörkin litu dagsins ljós í seinni hálfleik.
,,Þetta var gott kvöld því við spiluðum vel og nú þurfum við að tryggja okkur fyrsta sætið í riðlinum. Við spilum af meira sjálfstrausti núna miðað við í fyrra. Við höfum breytt mörgum hlutum í leik okkar frá því á síðasta tímabili og það gengur betur hjá okkur,“ sagði Carlo Ancelotti knattspyrnustjóri Chelsea en lið hans hafði mikla yfirburði í leiknum.
Didier Drogba lék sinn fyrsta leik í Meistaradeildinni á tímabilinu. Hann bar fyrirliðabandið í fjarveru John Terry og skoraði annað mark liðsins úr vítaspyrnu.