FC United, sem er hálf-atvinnulið og var stofnað fyrir fimm árum í kjölfar þess að Glazer-fjölskyldan bandaríska keypti Manchester United, tryggði sér í kvöld sæti í 2. umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu með 3:2 sigri á Rochdale sem er í þriðju efstu deild, fjórum deildum ofar en FC United.
FC United hóf keppni í neðstu þrepum enska fótboltans, í héraðsdeild, og vann sig upp um þrjár deildir á þremur fyrstu árunum. Það er komið í þriðju efstu utandeildina og er þar með nú í sjöundu efstu deild í Englandi.
Mikill fögnuður braust út hjá nokkur þúsund stuðningsmönnum FC United þegar flautað var til leiksloka en leikmenn liðsins halda í vonina um að mæta Manchester United í 3. umferð keppninnar en þá koma stóru liðin inn í keppnina.