Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, segist ekki hafa í hyggju að segja starfi sínu lausu þrátt fyrir slæmt gengi liðsins í undanförnum leikjum. City tapaði í gærkvöld þriðja leik sínum í röð.
Auk ósigranna berast fregnir af sundurlyndi í leikmannahópi City og sagt að Mancini eigi í mestu vandræðum með að hafa stjórn á rándýrum leikmönnum liðsins.
„Hvað mig varðar er staðan algjörlega á hreinu. Ég verð hjá City þangað til ég verð rekinn þaðan. Ég hef hitt eigandann Sheikh Mansour tvisvar eða þrisvar og við eigum góð samskipti. Ég er líka stöðugt í sambandi við forsetann, Khaldoon Al Mubarak, við ræðum saman þrisvar til fjórum sinnum í viku og hann kemur oft á æfingar," sagði Mancini við So Foot í Frakklandi.
Talið er að forráðamenn City hafi krafist þess að liðið næði í það minnsta fjórða sæti úrvalsdeildarinnar í vetur og kæmist í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. City er í fjórða sæti en hefur tapað þremur leikjum í röð, fyrir Arsenal, Wolves og fyrir Lech Poznan í Evrópudeild UEFA í gærkvöld.