Roberto Mancini knattspyrnustjóri Manchester City sagði að það hefði skipt mestu máli fyrir bæði lið í kvöld að tapa ekki, eftir að lið hans gerði 0:0 jafntefli við Manchester United í grannaslagnum í ensku úrvalsdeildinni.
„Fyrir okkur og fyrir þá var aðalmálið að tapa ekki leiknum. Þeir eru með sterkt lið og vörðust mjög vel, og það voru ekki mörg færi til að skora mörk í þessum leik. Ég held að þetta sýni að City er á sama getustigi og United um þessar mundir," sagði Mancini á fréttamannafundi eftir leikinn.
„Það var of mikil spenna í aðdraganda leiksins til þess að hann gæti verið eins opinn og sumir vildu. Ég tel þó að við höfum stjórnað leiknum vel, en það var þó án þess að skapa mörg færi og það eru mestu vonbrigðin. City lagði alla áherslu á að tapa ekki leiknum," sagði Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United.
Jafnteflið þýðir að bæði lið dragast aðeins afturúr Chelsea, sem vann Fulham í kvöld, 1:0, og náði fjögurra stiga forskoti á United sem er í öðru sæti.