Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá Arsene Wenger knattspyrnustjóra Arsenal eftir tapið gegn Tottenham á Emirates Stadium í dag. Arsenal var 2:0 yfir í hálfleik en Tottenham tókst að snúa leiknum sér í vil í seinni hálfleik og vinna, 3:2.
,,Þegar maður skoðar tölfræðina þá er erfitt að skilja hvernig við fórum að því að tapa leiknum en við misstum einhverja einbeitingu, gerðum okkur seka um grundvallarmistök og vorum óheppnir,“ sagði Wenger eftir leikinn en þetta var annar tapleikur liðsins á heimavelli í röð í deildinni.
,,Maður er hálf orðlaus að greina leikinn og það er ráðgáta hvernig þú tapar leik eins og þessum. Þegar maður skoðar þau færi sem Tottenham fékk þá er erfitt að skilja það hvernig okkur tókst að fá þrjú mörk á okkur en við töpuðum og þurfum að líta í eigin barm.“