FC United, liðið sem óánægðir stuðningsmenn Manchester United stofnuðu fyrir fimm árum og leikur í sjöundu efstu deild í Englandi, er enn með í bikarkeppninni eftir jafntefli á útivelli, 1:1, gegn Brighton, toppliði 2. deildar, í 2. umferð keppninnar í gær.
Þar með er enn til staðar sá möguleiki að FC United mæti Manchester United í 3. umferðinni en í 1. umferð aðalkeppninnar vann liðið frækinn útisigur, 3:2, á 2. deildarliðinu Rochdale.
Sam Ashton markvörður FC United var hetja liðsins í gær en hann varði vítaspyrnu frá Elliott Bennett á sjöttu og síðustu mínútu í uppbótartíma. Þá höfðu leikmenn FC United verið manni færri frá 70. mínútu þegar Scott McManus fékk rauða spjaldið en Mauricio Taricco skoraði jöfnunarmark Brighton á 83. mínútu.
FC United hóf bikarkeppnina snemma í haust eins og önnur utandeildalið en gífurlegur fjöldi þeirra spilar margar umferðir þar til nokkur komast í 1. umferð aðalkeppninnar, þar sem 2. og 3. deildarliðin mæta til leiks. Það er síðan í 3. umferðinni sem lið úrvalsdeildar og 1. deildar koma inní keppnina, í byrjun janúar.
FC United fær nú heimaleik gegn Brighton en síðdegis í dag verður hinsvegar dregið til 3. umferðarinnar og þá kemur í ljós hvaða mótherjar bíða sigurvegaranna.
Ljóst er að minnst tvö utandeildalið komast í 3. umferðina en York City og Dover Athletic lögðu andstæðinga sína að velli í 2. umferðinni í gær.