Chelsea er í öðru sæti ensku úrvalsdeildinnar í knattspyrnu eftir jafntefli, 1:1, gegn Newcastle á St. James' Park í dag. Manchester United er á toppnum með 31 stig en Chelsea og Arsenal eru með 29 stig.
Newcastle er í níunda sæti deildarinnar með 19 stig.
Newcastle byrjaði af miklum krafti, fékk tvöfalt færi eftir aðeins 18 sekúndur, og náði síðan forystunni á 6. mínútu. Alex átti þá misheppnaða sendingu til Petr Cech markvarðar, sendi framhjá Cech og Andy Carroll var fljótur að nýta sér það og sendi boltann í tómt markið, 1:0.
Salomon Kalou jafnaði fyrir Chelsea á 45. mínútu. Hann fékk boltann frá Florent Malouda, sneri á tvo varnarmenn Newcastle utarlega í vítateignum og skoraði með góðu skoti, 1:1.
Wayne Routledge var nærri því að koma Newcastle yfir á ný á 62. mínútu þegar hann átti mikinn þrumufleyg að marki Chelsea en Ashley Cole bjargaði vel með skalla á marklínunni.
Salomon Kalou fékk síðan ótrúlegt dauðafæri til að koma Chelsea yfir á 80. mínútu. Hann hitti þá ekki tómt markið eftir að hafa komist framhjá Tim Krul markverði Newcastle.
Newcastle: Krul, Simpson, Steven Taylor, Campbell, Jose Enrique, Routledge, Guthrie, Tiote, Gutierrez, Carroll, Ameobi.
Varamenn: Soderberg, Lovenkrands, Perch, Smith, Best, Kadar, Ranger.
Chelsea: Cech, Bosingwa, Alex, Ivanovic, Cole, Ramires, Mikel, Malouda, Anelka, Drogba, Kalou.
Varamenn: Turnbull, Ferreira, Sturridge, Van Aanholt, Bruma, Kakuta, McEachran.