Alan Pardew, nýráðinn knattspyrnustjóri Newcastle, kveðst hafa fengið mörg skeyti frá kollegum sínum í dag þar sem þeir segja að hann hljóti að vera brjálaður fyrst hann hafi tekið tilboði félagsins.
Ráðning Pardews kom mjög á óvart en hann tekur við af Chris Hughton, sem var rekinn úr starfi í vikunni, þrátt fyrir að hafa stýrt Newcastle uppí úrvalsdeildina síðasta vetur og ágæta byrjun liðsins þar.
„Ég hef fengið mörg slík skeyti í dag, en þetta er eitt af fimm stærstu liðum Englands. Þetta er krefjandi verkefni en ég gat ekki hafnað þessu boði," sagði Pardew við BBC í dag.
Hughton er geysilega vinsæll á meðal leikmanna og stuðningsmanna Newcastle og Pardew kveðst gera sér fulla grein fyrir því. „Leikmennirnir verða fyrsta vandamálið. Ég þarf að koma mínum skilaboðum til þeirra hratt og vel, svo ekkert bakslag komi í liðið sem hefur staðið sig ágætlega. Ég verð að vinna orrusturnar inni á vellinum, ég geri mér fulla grein fyrir því hvað bíður mín í þessu starfi," sagði Pardew, sem skrifaði undir samning til hálfs sjötta árs.
„Ég var harður á því að fá langan samning og fá stöðugleika hjá félagi sem hefur skipt ört um knattspyrnustjóra," sagði Pardew.