Aidy Boothroyd, knattspyrnustjóri enska B-deildarfélagsins Coventry, er allt annað en sáttur við umboðsmann Akureyringsins Arons Einars Gunnarssonar ef marka má viðtal við stjórann í Coventry Telegraph í gær.
Samningur Arons Einars rennur út næsta sumar og hafa viðræður staðið yfir um nýjan samning. Boothroyd segir Aron ekki til sölu þegar félagaskiptaglugginn opnast í janúar og vill ólmur halda íslenska landsliðsmanninum í herbúðum Coventry, en samningaviðræðurnar hafa ekki skilað árangri og segir Boothroyd það vera vegna óraunhæfra krafna af hálfu umboðsmanns Arons Einars. Aron sagðist í haust ætla að einbeita sér að fótboltanum og láta umboðsmann sinn sjá alfarið um samningaviðræðurnar.
„Allir leikmenn lesa blöðin og sjá þar að Wayne Rooney er með 250.000 pund á viku. Þá heldur Aron að hann eigi að fá 245.000 pund á viku. Hann er ekki alveg orðinn svo mikils virði ennþá þó að ég vonist til að svo verði einn daginn. Formaðurinn er að ræða við umboðsmann hans en ég held að umboðsmanninum veiti ekki af að fá sér sterkan kaffibolla og velta hlutunum betur fyrir sér. Kannski er hann bara að hugsa um að fá sem mesta peninga sjálfur,“ sagði Boothroyd.
„Aron er ungur leikmaður og alveg hrikalega hæfileikaríkur en knattspyrnuheimurinn hefur breyst. Um tíma fengu leikmenn sennilega hærri laun en þeir áttu skilið, en vegna þrenginga í efnahagslífinu hefur þetta breyst og umboðsmenn eru jarðbundnari. Alla vega flestir þeirra.
Við erum ánægðir með Aron og viljum halda honum. Ég held að hann sé enn ekki nærri því eins góður og hann getur orðið. Hann er mjög efnilegur en sem stendur skortir hann stöðugleika,“ bætti stjórinn við. sindris@mbl.is