Mikil eftirvænting ríkir fyrir toppslag Manchester United og Arsenal á Old Trafford í kvöld en leikurinn hefst kl. 20. Leikmenn liðanna hafa verið að senda andstæðingum sínum tóninn í blaðaviðtölum og ljóst að búast má við hörkuleik. Fyrir hann munar aðeins einu stigi á liðunum en United á þó leik til góða.
Óvíst er með þátttöku Spánverjans Cesc Fabregas í leiknum en hann er staðráðinn í að spila og vill að Arsenal-menn sýni úr hverju þeir eru gerðir í kvöld.
„Ef ég get mögulega spilað þá geri ég það. Við förum svo sannarlega á Old Trafford með það í huga að næla í sigur og það myndi senda skýr skilaboð um það hvað við ætlum okkur. Þetta er hrikalega mikilvægur leikur,“ sagði Fabregas.
Suður-Kóreumaðurinn Park Ji-sung, leikmaður United, er því sammála og hann vonast til að United haldi áfram því taki sem liðið virðist hafa á Arsenal. Lundúnaliðið hefur tapað 4 af síðustu 5 leikjum liðanna, en í fimmta leiknum gerðu þau jafntefli. „Við munum halda áfram að spila svona vel gegn Arsenal, eins og við höfum gert í gegnum tíðina,“ sagði Park. sindris@mbl.is