Wojciech Szczesny, tvítugur Pólverji sem er þriðji markvörður Arsenal, stendur líklega í marki liðsins í leiknum mikilvæga gegn Manchester United á Old Trafford í kvöld, þar sem landi hans, Lukasz Fabianski, glímir við meiðsli.
Szczesny gaf þetta sjálfur til kynna á samskiptaforritinu Twitter í gærkvöld en þar skrifaði hann færslu um leikinn á morgun og svaraði síðan spurningu á þann veg að hann væri vel undir það búinn að mæta Wayne Rooney.
Útfrá þessu hefur verið lagt á þann veg að strákurinn verði í markinu. Hann hefur spilað þrjá leiki með aðalliði Arsenal og haldið hreinu í þeim öllum.
Manuel Almunia hefur náð sér af meiðslum í olnboga en er staddur á Spáni og vill komast burt frá enska félaginu þar sem ljóst þykir að Fabianski hafi hirt af honum stöðuna sem fyrsti markvörður Arsenal.