Frakkinn Patrice Evra, bakvörður hjá Manchester United, segir að sigur liðsins á Arsenal á mánudaginn hafi staðfest það sem hann sagði í aðdraganda leiksins, þ.e. að Arsenal væri ekki á leiðinni að vinna stóran titil á þessari leiktíð.
„Við sönnuðum það sem ég hafði sagt. Mér fannst Arsenal spila mjög vel, því er ekki að neita, en við vorum betri. Þetta segi ég án þess að vilja hljóma hrokafullur,“ sagði Evra við The Sun. Í viðtali fyrir leikinn talaði hann einnig um að Arsenal væri lítið annað en æfingabúðir fyrir efnilega leikmenn.
„Ég heyrði fólk segja að orð mín hefðu verið fyrir neðan beltisstað en það var líka ætlun mín. Ég vildi sýna hvað ég hef mikla trú á mínu liði. Við þekkjum Arsenal og vitum að ef við gefum liðinu engan tíma til að athafna sig þá eiga leikmenn þess erfitt uppdráttar, sérstaklega á Old Trafford,“ bætti Evra við.