Mancini varar Balotelli við hrokanum

Mario Balotelli í leik með Manchester City gegn West Ham.
Mario Balotelli í leik með Manchester City gegn West Ham. Reuters

Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur varað landa sinn, hinn ítalska Mario Balotelli, við eftir frekar hrokafull ummæli piltsins í kjölfar þess að FIFA útnefndi hann efnilegasta leikmann heims 2010 í fyrradag.

Balotelli sagði eftir að hann tók við viðurkenningunni að hann hefði ekki hugmynd um hver Jack Wilshere hjá Arsenal væri en Wilshere varð annar í kjörinu. Þá sagði hann að einungis einn leikmaður sem hefði áður fengið þessa viðurkenningu, Lionel Messi, væri betri en hann sjálfur.

„Einungis sá sem spilar vel í hverjum einasta leik hefur efni á að láta svona lagað útúr sér. Svo verða menn að geta brosað í fótboltaleik," sagði Mancini við BBC.

„Ef hann telur sig jafngóðan og hann sagði, verður hann að sýna það í verki. Úrvalsdeildin er mjög frábrugðin ítölsku A-deildinni og hann verður að átta sig á því, og verður að bæta sig. Brosandi leikmaður nær líka betri árangri. Það er vissulega gott þegar leikmaður hefur trú á sjálfum sér. Mario Balotelli hefur allt sem þarf til að verða einn af bestu leikmönnum heims. En hann verður að bæta sig og sýna það. Þetta er undir honum sjálfum komið," sagði Mancini en City keypti Balotelli af Inter Mílanó í sumar fyrir 24 milljónir punda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert