Tveir leikir eru fallnir af dagskrá ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag en leikjum beggja Liverpool-liðanna hefur verið frestað. Blackpool - Liverpool og Everton - Birmingham geta ekki farið fram.
Bloomfield Road, heimavöllur Blackpool, reyndist ekki leikfær þegar hann var skoðaður klukkan 10 í morgun. Frostið í Englandi jókst í nótt og þrátt fyrir mikla vinnu við völlinn yfir jólin var enginn annar kostur en að fresta leiknum.
Hjá Everton, sem átti að fá Birmingham í heimsókn, kom frostið líka við sögu en vatn fraus í leiðslum við Goodison Park, heimavöll Everton. Þar með var ekki hægt að láta leikinn fara fram.
Sjö leikir eru þar með eftir á dagskránni í ensku úrvalsdeildinni í dag. Mörgum leikjum er frestað í neðri deildunum og aðeins tveir leikir standa t.d. eftir í 2. deild. Annar þeirra er leikur Íslendingaliðanna Huddersfield og Hartlepool. Enn hefur ekki verið frestað hjá Íslendingaliði í 1. deildinni.