Lampard loks í byrjunarliðinu

Frank Lampard.
Frank Lampard. Reuters

Frank Lampard kemur inní byrjunarlið Englandsmeistara Chelsea í fyrsta sinn síðan hann meiddist í ágúst þegar þeir sækja Arsenal heim í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar á Emirates í London í kvöld.

Lampard hefur komið við sögu sem varamaður í einum leik Chelsea í desember en hann þurfti að fara í aðgerð á nára í haust og hefur verið sárt saknað í liði meistaranna sem hafa misstigið sig talsvert undanfarnar vikur.

„Það er geysilega mikilvægt að fá hann til að styðja við sóknarmenn okkar og það er frábært að fá Frank aftur. Hann er kominn í gott form og er æstur í að spila á fullu á ný. Það er afar erfitt að finna menn eins og hann sem geta skorað 20 mörk á tímabili. Hann er með karakterinn og hæfileikana, hann hleypur endalaust, leggur hart að sér, kvartar aldrei og er einstakur fagmaður," sagði Carlo Ancelotti knattspyrnustjóri Chelsea á vef félagsins.

„Frank er með bestu ímynd sem hægt er að hugsa sér. Ég vil ekki sjá leikmenn sem tala og tala en hreyfast ekki á vellinum. Ég vil leikmenn sem tala ekki en hlaupa. Þeir láta verkin tala. Ég er ekki að biðja um eitthvað einstakt frá Frank en það er einfaldlega enginn leikmaður til sem getur leyst hann af hólmi," sagði Ancelotti.

Viðureign Arsenal og Chelsea hefst klukkan 20 í kvöld. Liðin eru í þriðja og  fjórða sæti með 32 og 31 stig, á eftir Manchester United og Manchester City sem eru með 37 og 35 stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert