Eins og aðrir hjá Arsenal er Arsene Wenger knattspyrnustjóri smeykur við Didier Drogba fyrir viðureignina gegn Chelsea í kvöld og segir að það verði lykilatriði fyrir sína menn að hafa hemil á þessum öfluga sóknarmanni.
Drogba hefur gert það gott fyrir Chelsea í leikjum við Arsenal undanfarin ár og skorað 13 mörk í 13 viðureignum félaganna. Hann hefur aldrei tapað leik gegn Arsenal.
„Hann er maðurinn sem þarf að halda í skefjum. Ef við lítum á tölfræðina fer ekki á milli mála að varnarleikurinn gegn Drogba er eitt af því mikilvægasta, jafnvel það allra mikilvægasta í þessum leik. Það skiptir líka miklu máli að stöðva Frank Lampard því samvinna þeirra er geysilega góð. Hann nær alltaf að senda boltann á Drogba og það þarf að stöðva," sagði Wenger við BBC.
„Drogba er maður stóru leikjanna og er okkur alltaf sérlega erfiður. Um daginn var Chelsea í vandræðum gegn Tottenham og hver kom þá og bjargaði þeim - enginn annar en Drogba," sagði Wenger og kvaðst jafnframt undrandi á slæmu gengi Chelsea í síðustu leikjum.
„Það er með ólíkindum að þeir skulu vera búnir að tapa fimm leikjum í vetur, sérstaklega þrisvar heima gegn liðum sem ekki eru í toppbaráttunni," sagði Wenger.