Flest virðist benda til að Manchester City kaupi Edin Dzeko, fyrirliða Wolfsburg í Þýskalandi og leikmann bosníska landsliðsins í knattspyrnu, fyrir 30 milljónir punda strax eftir áramótin.
Daily Mail skýrir frá því í dag að umboðsmaður Dzekos hafi verið í Manchester í gær í viðræðum við forráðamenn City. Wolfsburg setti upphaflega 38 milljón punda kaupverð á Dzeko en talið er að félögin séu að ná saman. Þá hefur Dzeko sjálfur lýst yfir miklum áhuga á að ganga til liðs við City og ljóst þykir að þýska liðið geti ekki haldið honum öllu lengur.
Dzeko er 24 ára gamall hávaxinn framherji og kom til Wolfsburg frá tékkneska liðinu Teplice árið 2007. Hann hefur skorað 65 mörk í 109 deildaleikjum fyrir Wolfsburg og varð þýskur meistari með liðinu árið 2009. Þá skoraði hann 26 mörk og varð næst markahæstur í deildinni, en síðasta vetur varð hann markakóngur hennar með 22 mörk. Dzeko hefur skorað 17 mörk í 31 landsleik fyrir Bosníu og varð í 2.-3. sæti yfir markahæstu leikmenn undankeppni HM ´Evrópu með 9 mörk.