Eiður Smári Guðjohnsen gæti verið á förum frá enska úrvalsdeildarfélaginu Stoke City í janúar að því er fréttastofa RÚV greindi frá í kvöld. Heimildir RÚV herma að Eiður hafi komist að samkomulagi um þetta við forsvarsmenn félagsins.
Eiður kom til Stoke frá Mónakó rétt áður en félagaskiptaglugginn lokaði í sumar. Hann samdi til eins árs en samkvæmt frétt RÚV mun hann ekki klára þann samning.
Eiður Smári hefur verið á varamannabekknum hjá Stoke 9 leiki í röð án þess að koma við sögu. Hann hefur aðeins komið við sögu í 4 deildarleikjum á leiktíðinni og aldrei verið í byrjunarliði hjá Stoke.