Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United var mjög ósáttur við að dómarinn skyldi ekki dæma markið sem Lee Bowyer skoraði undir lokin ógilt en í aðdraganda var ekki annað að sjá en að Nikola Zigic hefði handleikið boltann í vítateignum.
,,Þetta var hendi. Það var brot á miðverðinum líka. Ef dómarinn sá það ekki hvaða möguleika áttu þá? Við væntum þess að dómarinn sjái svona atvik. Við verðskulduðum að vinna því við vorum betra liðið í leiknum,“ sagði Ferguson eftir leikinn.
United heldur toppsætinu en liðið hefur jafnmörg stig og grannarnir í Manchester City sem hafa leikið tveimur leikjum meira. Áhyggjuefni Fergusons hlýtur að vera frammistaðan á útivelli en af leikjunum átta á útivelli hefur liðið aðeins unnið einn en gert sjö jafntefli.