Portsmouth, lið Hermanns Hreiðarssonar, náði jafntefli gegn Leeds á útivelli, 3:3, í ensku 1. deildinni í knattspyrnu í dag, þrátt fyrir að hafa lent 2:0 og 3:1 undir.
Andy O'Brien, varnarmaður Leeds, vill eflaust gleyma leiknum sem fyrst. Hann skoraði tvö síðari mörk Portsmouth, sem sagt tvö sjálfsmörk, og það síðara á þriðju mínútu í uppbótartíma.
Hermann var varamaður hjá Portsmouth og kom ekki við sögu. Hann var í fyrsta skipti í byrjunarliði Portsmouth í níu mánuði á sunnudaginn, en hann er að komast í gang eftir að hafa slitið hásin í fæti. Steve Cotterill knattspyrnustjóri Portsmouth hefur ítrekað sagt að hann vilji ekki setja of mikið álag á Hermann strax og lét hann því ekki spila tvisvar á þremur dögum.
Watford vann Cardiff, 4:1, og þar með vænkaðist enn hagur Heiðars Helgusonar og félagar í QPR á toppi deildarinnar. Þeir unnu Coventry 2:0 fyrr í dag og eru með 47 stig en Cardiff, Swansea og Leeds eru með 40 stig hvert og Norwich 39.
Reading gerði 1:1 jafntefli við Hull á útivelli en Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson voru ekki í leikmannahópnum. Þeir eru báðir að komast af stað eftir langvarandi meiðsli.
Jóhannes Karl Guðjónsson lék síðustu 20 mínúturnar með Huddersfield sem steinlá fyrir Southampton á útivelli í 2. deild, 4:1.
Kári Árnason lék allan leikinn með Plymouth sem gerði 1:1 jafntefli við Notts County í 2. deild.