Roy Hodgson knattspyrnustjóri Liverpool gat ekki leynt vonbrigðum sínum eftir tap á heimavelli gegn botnliði Úlfanna í kvöld. Wolves vann sinn fyrsta sigur á Anfield síðan árið 1984 og þeir eru margir sem spá því að Hodgson mæti ekki til starfa hjá Liverpool á nýju ári.
,,Þessi frammistaða var langt fyrir neðan það sem við erum færir um að gera og vildum sýna. En ég verð að hrósa Wolves fyrir góðan leik. Mér fannst við óheppnir að tapa leiknum og kannski hefði 0:0 verið sanngjörn úrslit. En þessi úrslit voru ekkert nærri væntingum okkar og vonum,“ sagði Hodgson en lið hans hefur nú tapað átta af 18 leikjum sínum í deildinni.