Blackburn staðfestir tilboðið

Ronaldinho.
Ronaldinho. Reuters

Enska knattspyrnufélagið Blackburn Rovers staðfesti nú undir kvöld þær fregnir sem bárust fyrr í dag að félagið hefði gert AC Milan tilboð í Brasilíumanninn kunna Ronaldinho.

Tilboðið hljópar uppá 6,2 milljónir punda en Blackburn er í samkeppni við Gremio í Brasilíu um að fá kappann í sínar raðir. Ronaldinho var fyrr í dag sagður vera kominn til Brasilíu ásamt umboðsmanni sínum og bróður, Roberto de Assis, til að ræða við forráðamenn Gremio.

Fyrr í dag harðneituðu forráðamenn Blackburn fréttum af meintum viðræðum við Ronaldinho, eftir að de Assis sagði frá áhuga félagsins, en hafa nú skýrt frá sinni hlið málsins.

Ronaldinho, sem er þrítugur, hefur verið í röðum AC Milan í hálft þriðja ár en átti þar áður glæsilegan fimm ára feril með Barcelona. Honum hefur heldur fatast flugið síðan og AC Milan vill nú losna við hann í janúar til að fá einhverja upphæð fyrir hann en samningur hans við félagið rennur út í vor.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert