Peter Taylor, knattspyrnustjóri Bradford City og þjálfari enska 21-árs landsliðsins um árabil, hefur staðfest að eiga í viðræðum við Newcastle um að gerast þar aðalþjálfari og hægri hönd stjórans Alans Pardews.
Taylor er þrautreyndur í faginu en hann hefur starfað sem knattspyrnustjóri hjá m.a. Brighton, Crystal Palace, Hull, Leicester, Wycombe og Gillingham, og víðast hvar náð góðum árangri. Þá stýrði hann enska landsliðinu í einum leik áður en Sven-Göran Eriksson var ráðinn þjálfari þess fyrir tæpum áratug.
Sem leikmaður lék Taylor lengst með Crystal Palace og Tottenham og spilaði fjóra landsleiki fyrir Englands hönd.
Taylor, sem er 58 ára gamall og á einmitt afmæli í dag, hefur stýrt Bradford City undanfarna tíu mánuði. Lið hans er í tíunda sæti 3. deildar eftir sigur á Bury í dag, 1:0.