Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, staðfesti fyrir stundu að félagið hefði náð samkomulagi við Wolfsburg í Þýskalandi um kaup á bosníska framherjanum Edin Dzeko.
„Við eigum mikilvægan leik fyrir höndum við Arsenal og munum ræða um Dzeko eftir það. Við höfum komist að samkomulagi um kaupverð. Hann er góður leikmaður og öll lið í Evrópu vilja fá hann," sagði Mancini við BBC.
Dzeko er samningsbundinn Wolfsburg til ársins 2013 en er með klásúlu í sínum samningi sem heimilar honum að fara fyrir 30 milljónir punda. Talið er að City muni greiða þá upphæð fyrir hann.
Dzeko er 24 ára og einn mesti markaskorari í Evrópu síðustu árin, en hann hefur gert 66 mörk í 111 leikjum fyrir Wolfsburg og skoraði grimmt fyrir Bosníu í undankeppni HM.