Portúgalski knattspyrnumaðurinn Nani telur að Manchester United eigi góða möguleika á að fara taplaust í gegnum ensku úrvalsdeildina í vetur en liðið er án taps í fyrstu 20 leikjum sínum.
Arsenal tapaði ekki leik tímabilið 2003-04 þegar liðið varð meistari og Nani telur að United geti leikið það afrek eftir.
„Ég vonast eftir því að við töpum ekki leik í vetur. Staða okkar er frábær og við höfum spilað vel. Við verðum að halda áfram að leggja hart að okkur og gera sömu hlutina. Ég hef á tilfinningunni að þetta verði mjög sérstakt tímabil," sagði Nani sem lagði upp fyrra markið og skoraði það síðara í 2:1 sigrinum á Stoke í gærkvöld.
Manchester United hefur unnið 12 leiki og gert 8 jafntefli, og er með þriggja stiga forskot á næsta lið, Manchester City, sem hefur leikið tveimur leikjum meira. Ljóst er þó að forskotið minnkar allavega niður í tvö stig í kvöld en þá mætast Arsenal og Manchester City.