Sjö leikir í Englandi í kvöld

Arsenal tekur á móti Manchester City í stórleik kvöldsins.
Arsenal tekur á móti Manchester City í stórleik kvöldsins. Reuters

Sjö leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld og þar ber hæst slag Arsenal og Manchester City sem eru í öðru og þriðja sæti deildarinnar.

City er í öðru sætinu með 41 stig, þremur stigum á eftir Manchester United, en Arsenal er í þriðja sæti með 39 stig. Næstu lið á eftir, Tottenham og Chelsea, verða einnig í eldlínunni í kvöld og spila bæði á útivelli.

Í fallbaráttunni er sívaxandi spenna. West Ham og Wigan duttu niður í fallsæti á ný í gær þegar Fulham og Birmingham unnu sína leiki, en gætu komist þaðan aftur í kvöld með sigrum. Aðeins fjögur stig skilja að Fulham, sem er í 13. sætinu, og Wolves, sem er í 20. og neðsta sætinu.

Grétar Rafn Steinsson missir nær örugglega af grannaslag Bolton og Wigan. Hann meiddist í leik gegn WBA á öðrum degi jóla og er á góðum batavegi en Owen Coyle knattspyrnustjóri sagði í gær að hann næði tæpast þessum leik.

Leikir kvöldsins eru þessir:

19.45 Arsenal - Manchester City
19.45 Aston Villa - Sunderland
19.45 Newcastle - West Ham
19.45 Wolves - Chelsea
20.00 Blackburn - Liverpool
20.00 Bolton - Wigan
20.00 Everton - Tottenham

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert